Sverrir Páll segir - eins konar vefdagbók
Athugasemdir og ábendingar má senda á svp@ma.is
 
 
- Júlí 2006 -

Eldri pistlar:

júní 2006
maí 2006

apríl 2006
mars 2006
feb 2006
jan 2006
des 2005
nóv 2005
okt 2005
sept 2005
ágúst 2005
júlí 2005
júní 2005
maí 2005
apríl 2005
mars 2005
febrúar 2005
janúar 2005
des 2004
nóv 2004
okt 2004
sept 2004
á
gúst 2004
júlí 2004
júní 2004
maí 2004

apríl 2004
mars 2004
feb. 2004
jan 2004
des 2003
nóv 2003
okt 2003
sept 2003
ágúst 2003
júlí 2003
júní 2003
maí 2003
apríl 2003
mars 2003
feb 2003
jan 2003
des 2002

Breytingar
Ágætu lesendur
Vegna vinnu við tölvukerfi MA í sumar hafa orðið talsvert óregluleg hlé á pistlum um mannamál, ég hef einfaldlega átt í basli við að komast í samband við síðuna.

Ég hef því flutt mig til og pistlarnir Mannamál verða framvegis á nýjum stað:
Smellið á svp.is og þá mun ykkur opnast Vefsetur Sverris Páls með ýmsu efni. Ef þið smellið á tengilinn Greinar undir mjóu myndinni efst á síðunni getið þið meðal annars valið að lesa Mannamál og þar gefst nú kostur á spjalli, þið getið þar lagt orð í belg. Ég vona að þetta gangi vel, en eldri mannamálspistlar eru ennþá hér á þessum stað. Með tíð og tíma mun ég leitast við að færa allt á sama stað.

2. ágúst 2006
Sverrir Páll

Hin bjartsýnu augu
Í útvarpinu var rætt um bændur og kúabú og þá sagði Arnar Páll: „Formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir greinilegt að mjólkurframleiðendur horfi bjartsýnum augum til framtíðar.“ Æææ! Hvernig geta augu verið bjartsýn? Segjum frekar að bændur séu bjartsýnir. Stundum er reyndar talað um að líta björtum augum á eitthvað. Púkanum í mér datt hins vegar í hug að ef til vill þyrftu bændurnir að fá sér svartsýn gleraugu til að jafna sýnina.En það er annað mál. 14. júlí 2006

Orf og ljár
Ég fékk á unglingsárum aðeins að prófa að slá með orfi og ljá, en þau tæki eru komin á söfn. Löngu síðar var farið að nota orf sem knúin voru af lítilli vél og í stað ljás er þráður, oft svert nælongirni eða jafnvel grannur vír. Þá var allt í einu farið að tala um sláttuorf, mótorsláttuorf, jafnvel mótorvélsláttuorf. Þetta hefur nú með árunum einfaldast og er jafnan kallað sláttuorf núna. En mér er spurn: Hvers vegna sláttuorf? Hvers vegna er þetta ekki einfaldlega kallað orf. Ég veit ekki til þess að neitt annað hafi verið gert við orf en að slá með því. Þá væri einfalt að nota orðið rafmagnsorf ef tækið er rafdrifið og bensínorf ef það er með bensínmótor o.s.frv. Orf er nóg. Sláttuorf er verra. Það er jafnkauðalegt orð og ökubíll. 14. júlí 2006

Fótgangandi
Mér finnst alltaf sérkennilegt að tala um að einhver fari fótgangandi frá einum stað til annars. Ég reikna ekki með að menn gangi á öðru en fótum og því væri einfaldara og eðlilegra að fara gangandi. Varla færu menn langt gangandi á höndum (handgangandi). 14. júlí 2006

Þú – og enginn annar en þú
Ég hef áður bent á að fornafnið þú er í íslensku aðeins og eingöngu persónufornafn og táknar þann einan sem talað er við. Það er snarvitlaus íslenska að nota persónufornafnið þú í merkingunni maður, einhver eða hver sem er. Það vill svo til að í nágrannamáli okkar, nokkuð skyldu, er til fornafn sem lítur út alveg eins og persónufornafnið en er hins vegar svokallað óákveðið fornafn. Þetta er enska og orðið you. Þrátt fyrir að í ensku sé óákveðna fornafnið you notað um einhvern ótiltekinn er slíkt ekki heimilt í íslensku. Samt er það afar algengt. Bjánalegast af öllu er þó dæmi sem ég heyrði í útvarpinu á dögunum. Þá var útvarpskona, takið eftir, kona, að tala við karlmann og hann svaraði henni, þegar hún spurði hvernig eitthvað væri gert: „Þú þarft náttúrulega að vera svolítið yfirvegaður.“ Svona lagað má einfaldlega ekki gera. Kona getur ekki verið yfirvegaður! 3. júlí 2006

Bubbaplakatið
Það er dálítið nöturlegt, en staðreynd þó, að splunkunýtt veggspjald sem er auglýsing um nýja plötu frá Bubba Morthens er með þessari villu: Nýji diskurinn!!! 3. júlí 2006

Valda
Óttalega er leiðinlegt að heyra fréttamenn beygja vitlaust. Þetta hef ég sagt og skrifað ótrúlega oft upp á síðkastið. Í gær heyrði ég í útvarpi að eitthvað hefði ollið honum vonbrigðum. OLLIÐ! Snarvitlaust. Það má ekki blanda saman sögnum. Það má heldur ekki taka að sér að tala í útvarp ef maður er málhaltur. Það má að minnsta kosti ekki ráða svoleiðis fólk til að tala í útvarp. Sögnin að valda hefur þátíðina olli, ég olli þér vandræðum. Lýsingarhátturinn, þetta fyrirbæri sem stendur með hjálparsögninni að hafa er hins vegar valdið, ég hef valdið þér vandræðum. Ollið er hins vegar komið af allt annarri sögn, sögninni að vella. Grauturinn vellur í pottinum – og ef það er þátíð: Grauturinn vall í pottinum eða jafnvel út úr honum. Hafi það gerst getum við sagt að grauturinn hafi ollið út úr pottinum og leirinn ollið upp úr hvernum. Þetta er kennt í grunnskóla. 3. júlí 2006

Tímapunktur
Mig langar til að biðja fólk að draga úr þeim ósið að segja á þessum tímapunkti þegar það ætti að segja nú eða núna, á þeim tímapunkti þegar þeir meina þá og á einhverjum tímapunkti þegar þeir ættu að segja einhvern tíma. Þetta veður uppi núna eins og ekkert sé eðlilegra. Þetta er hins vegar engin íslenska. 3. júlí 2006

Faðir
Sumir nota enn þetta ágæta orð, faðir um föður frá föður til föður. Ég hef þó alloft orðið var við að fólk kunni ekki lengur að beygja það rétt. Ég hef heyrt sagt: „Ég er í frakka faðir míns,“ og í útvarpinu um helgina var rætt við blaðamann sem er á ferð um Evrópulönd og sagði: „Ég á faðir sem er norskur.” Það er synd að fólk skuli ekki kunna að beygja venjuleg íslensk orð og við verðum að reyna að leiðrétta þá sem segja svona vitleysu og aðra sambærilega. Ein hættan á því að illa fari fyrir móðurmálinu er sú að við gefumst upp við að leiðrétta þá sem fara rangt með það. 3. júlí 2006

Eldur
Eitt dæmið um málleysu í fjölmiðlum er að þar vaða uppi starfsmenn sem kunna ekki einfalda beygingu orða og kunna heldur ekki nægilega vel að fara með alkunn orðatiltæki. Þetta er stórhættulegt því vitleysa sem endurtekin er í fjölmiðlum berst hraðar um málheiminn en eldur um sinu. Eitt dæmi sem ég heyrði fyrir skemmstu var að talað var um að ná niðurlögum eldarins. Ætli sé ekki algengara að ráða niðurlögum og svo beygist eldur ekki til eldar heldur til elds. Þannig er það nú.
3. júlí 2006

 


 

(Frá 25. jan 2004)

Sýnishorn af snilldarþýðingum ástarsagna Ásta Hrönn Hersteinsdóttir - Rannveig Björnsdóttir