Málið mitt - íslenska
ýmislegt efni til að hressa upp á eitt og annað í málfræði og málnotkun
     
 
 
 
 
 

Margir Íslendingar koma í íslenska framhaldsskóla eftir öðrum leiðum en þeir sem ganga allan sinn skólaveg í gegnum íslenska grunnskólakerfið. Fjöldi Íslendinga býr í útlöndum í lengri eða skemmri tíma og þess vegna ganga margir íslenskir unglingar í erlenda skóla, fá litla eða enga kennslu í íslensku máli og málfræði. Þó að íslenska sé töluð heima jafngildir það aldrei íslenskunámi grunnskólans. Þegar fólk býr í útlöndum og gengur í erlenda skóla er íslenska alltaf aukamál, tungumál viðkomandi lands er aðalmálið.

Börn hafa sérstaka hæfileika til að tileinka sér tungumál, sumir segja að þau taki málið inn með móðurmjólkinni, en þau eiga líka auðvelt með að ná mjög traustum tökum á erlendum málum sem þau alast upp við. Þegar vissum aldri er náð í bernsku missir einstaklingurinn hæfileikann til að læra tungumál án hjálpartækja. Hjálpartækin eru í meginatriðum málfræði, einhver eða einhverjar af greinum hennar.

Þeir unglingar, sem koma til Íslands til að stunda nám í framhaldsskólum, kunna yfirleitt mikla íslensku og hafa talað hana meira og minna við foreldra og systkini. En íslenska er annað eða jafnvel þriðja mál þeirra. Þess vegna þurfa þeir framan af Íslandsdvölinni að þýða erlendar hugsanir sínar yfir á íslensku á meðan þeir æfa sig í að hugsa á íslensku, gera íslenskuna sjálfsagða og venja sig á að nota hana rétt. Sumir eiga auðvelt með þetta en öðrum gengur það verr, jafnvel vegna þess að þeir vilja ekki láta heyra að þeir tali ekki rétt, beygi orðin ekki rétt, og reyna því að koma sér hjá því að tala eða venja sig á að tala óskýrt og hratt svo villur heyrist ekki.

Þessi málfræði- og málfarsvefur er gerður fyrir þessa ágætu Íslendinga sem koma frá útlöndum í þeirri von að hann geti hjálpað þeim að ná góðum tökum á gamla málinu. Vefurinn er líka fyrir aðra góða Íslendinga, sem gengið hafa hefðbundinn íslenskan skólaveg en af einhverjum sökum ekki náð nógu traustum tökum og grunnatriðum málfræði og málnotkunar. Vefurinn er ætlaður til sjálfsnáms eða dreifnáms með svolitlum afskiptum kennara.

Menntamálaráðuneytið veitti styrk til að hrinda þessu verki af stað. Vonandi verður unnt að halda verki áfram og búa þenna litla vef fjölbreytilegum æfingum og ítarefnum svo hann megi gagnast sem flestum.

Athugasemdir og fyrirspurnir má senda í tölvupósti til svp@ma.is

    © Sverrir Páll Erlendsson, Akureyri 2003