INNGANGUR

TALFÆRIN

MÁLHLJÓÐIN

SÉRHLJÓÐIN

SAMHLJÓÐIN

ÆFINGAR

FORSÍÐA

Nánar um það að segja hljóð - tala.

 

Að segja hljóðin 
Meðal þess sem telst vera sérstaða mannsins í tilverunni er hæfileiki hans til að tala. Börn læra þessa list á fyrsta þroskaskeiði, og í raun og veru líta flestir á það sem sjálfsagðan hlut að menn geti talað - án þess að þeir velti því nokkuð fyrir sér hvernig þeir fara að því.  Í nútímahljóðfræði er meðal annars fjallað um þetta: 

  • hvernig við segjum það sem við segjum, 

  • hver hljóðin eru í málinu sem við tölum hverju sinni, 

  • hvar og hvernig við myndum þessi hljóð. 

Við erum með öðrum orðum að fjalla um það hvernig við gerum það sem við lærðum að gera, eiginlega fyrirhafnarlaust, þegar við vorum agnarlítil kríli og höfum gert síðan - að því flestum finnst - án umhugsunar. Við erum ef til vill að fjalla á dálítið flókinn og fræðilegan hátt um það sem flestum þykir álíka sjálfsagt og að anda (sem út af fyrir sig er líka flókið líffræðilegt ferli), en hljóðfræðin, eins og við munum fjalla um hana hér, getur gert okkur mikið gagn, ekki síst af því við erum ekki lengur börn og höfum ekki lengur þann einstaka hæfileika ungbarna að læra mál án fyrirhafnar. 

  • Með því að þekkja og skilja hljóðmyndun getum við betur en ella fylgst með því sem við segjum sjálf og heyrum aðra segja.

  • Með hjálp hljóðfræðinnar getum við á tiltölulega auðveldan hátt, lagfært talgalla sem kynnu að vera hjá okkur sjálfum.

  • Við gætum einnig auðveldað öðrum að átta sig á talgöllum sínum og bæta úr þeim. Til dæmis kennt börnunum sem við eigum eftir að eignast að tala skýrt og rétt.

  • Við getum auk þess með styrk hljóðfræðinnar bætt framburð okkar, framsögnina, en það ætti að vera öllum eftirsóknarvert að geta talað skýrt og greinilega.

  • Síðast en ekki síst í þessari upptalningu er að sá sem hefur haldgóða þekkingu á hljóðfræði og hljóðmyndun eigin máls á mun auðveldara en ella með að tileinka sér framburð erlendra mála og greina á milli framburðareinkenna í þeim. Þar eru sömu talfærin notuð á svipaðan og oft sama hátt og í móðurmálinu, en sums staðar þarf að bregða ögn út af, mynda hljóð örlítið öðruvísi en venja er til. Ef við gerum það ekki tölum við til dæmis ensku með íslenskum hreimi og enskan okkar hljómar í eyrum þarlendra eins og íslenska í munni útlendings, sem ekki hefur lagt sig eftir þessum smáu og fíngerðu atriðum sem hnýta endahnútinn á það að tala það sem við köllum lýtalausa íslensku, lausa við erlendan hreim. Hljóðfræði móðurmálsins er því sannarlega hjálpartæki í erlendu tungumálanámi.

Til baka