INNGANGUR

TALFÆRIN

MÁLHLJÓÐIN

SÉRHLJÓÐIN

SAMHLJÓÐIN

ÆFINGAR

FORSÍÐA

Barki, barkakýli

Barkinn og barkakýlið eru mikilvæg tæki fyrir hljóðmyndun. Leið loftsins til og frá lungum er um barkann, þetta er hin mikla loftrás líkamans. Við öndum að okkur og frá. Þegar við öndum frá okkur getum við myndað hljóð með því að beita því sem er inni í barkakýlinu. Þar eru mjúk og blaut þykkildi sem kallast raddbönd og þegar við þrýstum lofti frá okkur myndast stundum titringur milli þeirra.

barki2.gif (9450 bytes)
Mynd: Malmberg, Bertil. 1963. Phonetics. 
Dover Publications Inc. New York

Barkinn

Á þessari mynd sést barkinn með barkakýlinu efst en lungnapípunum neðst. Þetta er loftleiðslan sem við notum hvort tveggja við öndun og tal. Loft sogast niður eftir þessu svera röri og út í pípurnar og tekur við ýmsum efnum úr lungunum sem við losnum við þegar við þrýstum loftinu út um sama svera rörið.

Þegar við tölum (eða syngjum eða gefum frá okkur sambærileg hljóð) verður einhver hindrun á leið loftsins út, en mikilvægasti  hindrunarstaðurinn er aðalhljóðmyndarinn, barkakýlið, en í því eru raddböndin

 

 


Mynd: Chrystal, David. 1997. The Cambridge Encyclopedia of Language. Cambridge University Press.

Barkakýlið

Efst á barkanum er barkakýli, eins og hnúður, nokkru sverara en barkinn sjálfur, og sést einkum hjá karlmönnum sem kúla framan á hálsi, sem hreyfist upp og niður þegar talað er eða kyngt. Konur hafa jafnan fínlegra og minna áberandi barkakýli.

Á myndunum hér til hliðar sést barkakýlið (a) framan á, (b) aftan á og (c) hægri hlið.

1. speldisbrjósk
2. skjaldbrjósk
3. könnubrjósk
4. hringbrjósk
5. barki

Inni í barkakýlinu eru raddböndin, mjúkir vöðvar, sem stýra röddun og hljómyndun. Eins og vænta má fer það eftir lögun barkans og stærð og þar með lögun og stærð raddbandanna hver rödd manna er. Dimm rödd karlmanna og skær rödd kvenna stafar meðal annars af þessu, rétt eins og raddir hljóðfæra eru að hluta til bundnar stærð þeirra, t.d. lengd og sverleika strengja. Þetta má sjá m.a. með því að bera saman fiðlu og kontrabassa eða hæsta og lægsta streng í píanói.

 

Sjá mynd af barkanum, lungum og öðrum talfærum.

Síðast yfirfarið 08.03.2001 - svp

 

©Allur höfundarréttur þessa efnis er hjá Sverri Páli Erlendssyni.  Notkun er öllum heimil, ekki síst þeim sem kynnu að þakka fyrir afnotin.   Öll birting ellegar frekari útfærsla er háð leyfi höfundar.